Björk er sniðug

Ég sá viðtalið við hana í Kastljósi og var ég mjög hrifin af því sem hún hafði að segja.  Hún er að hrinda góðum málum af stað.  Ég held að við getum nýtt okkur fjármálakreppuna á jákvæðan þátt, með því að læra af þeim mistökum sem orðið hafa.  Hugsa upp á nýtt, hvað getum við gert til að okkur líði vel/betur á Íslandi.  Við erum búin að læra að fólk gat orðið ríkt ansi hratt, en jafn hratt missti svo fólk líka mikið.  Þetta verður jú að taka með í reikninginn þegar verið er að stunda fjárhættuspil á þessum mælikvarða.  Ekki er hægt að stóla á að vinna alltaf, einnig þarf að vera viðbúinn hruninu ef tap verður.  Þannig eru jú fjárhættuspilin, græða stórt en líka tapa stórt.  Því miður bitnar svo svona lagað alltaf á röngum aðilum.  Þeir stóru komast upp með stór töp meðan hinir minni eru látnir borga upp í topp.  Þetta er óréttlætið í þeim heimi sem við búum í.  Vonandi munu sem flestir læra á þessu, ekki treysta stóru risunum, styðja frekar hina minni.  Sem er einmitt það sem Björk er að tala um.  Sprotafyrirtækin. 

Hvað getum við t.d. gert til að ferðamenn vilji koma til okkar kalda lands (já margir halda enn að hér sé svo kalt.. það sér maður nú t.d. á útbúnaði ferðamanna er hingað koma almennt). Ég sá grein eftir Gunnar Imsland forstjóra Iceland Express um daginn og var hans grein einmitt uppbyggjandi hvað varðar kreppuna.  Við eigum að nýta okkur þessa reynslu til góðs.  Það er Björk líka að reyna að benda á.  Við höfum ekki séð marga möguleika sem við eigum hérna.  Landið okkar er dýrmætt og því þarf að hlú að.  Ekki byggja allt of mikið af álverum, nóg er komið eins og er. Jarðarför Kárahnjúka landsins er jú gott víti til varnaðar.

Hin ósnortna náttúra er okkar aðal dýrgripur.  Hana á maður erfitt með að finna í Evrópu.  Akkúrat þess vegna sækir fólk mikið í að koma hingað.  Sérstaklega Þjóðverjar.  Enda skil ég nú vel að þeir sæki í landið okkar, þar sem maður heyrir alltaf í Hraðbrautinni, lest eða flugvél, þótt maður sjái kannski ekki nema trén í skóginum og smá graslendi á milli. Svo er líka víðáttan heillandi.  Svona víðáttu og fjölbreytni og einsemd (þá meina ég að vera einn með náttúrunni, semsagt jákvæða einsemd :)) er ekki að finna í hinum fjölbýlu löndum Evrópu.  Nákvæmlega þetta sækir hinn erlendi ferðamaður í, já og líka Íslendingurinn sem býr erlendis. Þeir sem ekki skilja hvert ég er að fara hér, ættu kannski bara að prufa að búa erlendis í svona nokkur ár.  Stundum finnst mér að það ætti að vera skylda allra landsmanna að flytja erlendis í smá tíma, þá fyrst lærir maður að meta landið sitt og finna fyrir hinum raunverulegu verðmætum þess.  Nákvæmlega þessum verðmætum verður að hlú að.

Björk var sniðug að hóa til sín fullt af sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum m.a. umhverfis og ferðamálum.  Ég held bara að þeir sem eru að skíta hana út hérna, séu bara öfundsjúkir eða þröngsýnir nú eða svo forfallnir efnishyggjunni að erfitt er að komast úr þeim pakka, (orðnir álvitlausir).  Nú og svo hin eilífa umræða um ESB.  Langt er nú orðið síðan Jón Baldvin var að "akitera" fyrir inngöngu.  Jú eitt er að sjálfstæði okkar sem þjóð er okkur mikilvægt, það tek ég líka undir heils hugar.  Ekki er heldur réttlátt að hugsa bara um ESB þegar harðnar í ári hjá okkur, eins og það eigi eitt og sér að redda málunum.  Samningaviðræður varðandi ESB yrðu erfiðar vegna fisksins því neita ég ekki.  Svo ég legg til að við kannski könnum hvernig staða þeirra í Brussel er í garð okkar.  Smáríki er líka ekki valdamikið í svona stóru bákni.  Svo ekki eigum við að flýja blint þangað.  En mér finnst nú allt í lagi að kanna málið, ekki loka alveg dyrunum á það.

Áfram Ísland, við stöndum okkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.