28.1.2008 | 23:03
Smá hugleiðing og ástæða fyrir stofnun þessa blogs
Ég er búin að vera búsett í Þýskalandi í nánast 10 ár og er ég loksins komin í almennilegt internet samband aftur. Það er svo notalegt að geta fylgst með fréttunum heima í gengum netið. Reyndar finnst mér ansi sorglegt að fylgjast með hvað er að gerast heima. Fannst mér skaupið lýsa því ansi vel. Var rosa gott að mínum dómi, en ekki voða fyndið... enda er það sem ég sé í íslenskum fréttum ekki heldur neitt fyndið.
Nýríkir stórhuga eiginhagsmunaseggir vaða uppi og núna á líka að rífa og ráðast á hjarta Reykjavíkurborgar... Alls staðar í Evrópu er verið að varðveita gömul hús og endurbyggja. En heima á hinu ylhýra móðurlandi er verið að ráðast að gömlum húsum, án þess að sjá hin hreinu menningarverðmæti í þeim. Og svo þykist enginn bera ábyrgð á neinu... Í hvaða þyrnirósarsvefni eru allir heima... ég bara skil þetta ekki.
Við viljum jú að Reykjavík sé heimsborg, en allar sjarmerandi heimsborgir hafa sitt hjarta og gömlu hús sem segja sögu borgarinnar. Þetta er það sem Kaninn hefur svo lítið af og lítur þ.a.l. alltaf til "The Old Country" og finnst hús sem eru rétt um 100 ára vera "very old". Evrópubúar bara hlægja að þeim. Viljum við líka láta hlæja að okkur? Og svo fráfarandi Borgarstjóri, gamall MRingur þykist svo ekki hafa neina tilfinningu fyrir gömlum húsum. Því bara vil ég ekki trúa. Þar finnst mér vera einhver maðkur í mysunni.
Ef þú lesandi góður hefur aldrei komið til Miðevrópu, þá bara myndi ég drífa mig sem fyrst. Sem betur fer er hægt að ferðast nokkuð ódýrt núorðið, svo það ætti ekki að vera neinum til fyrirstöðu. Skoðaðu t.d. Trier, Strasbourg, München, Berlin, Köln, Freiburg im Breisgau í Þýskalandi og berðu þær saman við t.d. Hannover, Giessen, Frankfurt am Main sem fóru allar mjög illa í seinni heimstyrjöldinni. Í Frankfurt am Main á að endurreisa hús sem féllu í stríðinu. Fyrir þessa endurbyggingu á að rífa ljóta stóra byggingu frá sjötta áratugnum. Heyr Heyr!! Nú og uppbyggingin í Berlín er jú einstök. Gömul hús fá að skína sem skærast, endurreist og löguð. Og þar sem þau eru fyrir er þeim gefið pláss í nýju skipulagi. Sjáðu til dæmis gamla húsið við Potsdamer Platz, það var meira að segja fært til svo ekki þyrfti að rífa það. Nú og við Brandenborgar hliðið. Þar voru hús byggð eins og þau gömlu litu út, alveg upp við Brandenborgarhliðið (Haus Sommer og Haus Liebermann). Hótel Adlon var endurreist, endurreisa á höllina sem Austurþjóðverjar létu sprengja rústirnar af til að geta byggt eigin höll "Erichs Lampenladen" (Palast der Republik) og svona má lengi telja. Nú og hugsið um uppbyggða Frúarkirkjuna i Dresden. Hún var rústir einar, en með framlögum frá almenningi var hún endurreist í upprunalegri mynd og er nú ein af merkilegri byggingum þar.
Ég veit að gömul hús eru jú mun misjöfn eins og þau eru mörg, og einhverjum finnst ég líklega vera ansi stór á mér að bera Frúarkirkjuna í Dresden saman við Laugaveg 4 og 6 eða Hljómalind eða Sirkus. En þetta eru allt hús með sál, þarna hafa lífssögur verið skrifaðar. Eins og með Austurstræti 22. Það var virkilega sorgleg sjón að sjá það hús brenna. Vitanlega var það orðið illa farið, en það er jú undir eigendum komið að halda þeim við. Ætti að setja lög um viðhald á gömlum húsum og jafnvel veita eigendum gamalla húsa styrk til að endurbyggja þau og halda þeim í horfi. Einnig finnst mér sorglegt að engin búð er lengur til í miðbænum með gömlum upprunalegum innanstokksmunum. Það er hægt að finna hérna á meiginlandinu, og gefur það virkilegan sjarma. Það er ekkert gaman þegar allt er eins, allt í sama nútíma stílnum...
Er ekki nýji Fjalarkötturinn fallegur? Aðalstrætið er orðið mun fallegra en það nokkru sinni var, eftir að hann var endurreistur og húsin við þessa götu tekin í gegn. Já svona fréttir eru góðar fréttir. Ég vildi fegin heyra meira af þeim.
Kær kveðja héðan úr hjarta Evrópu
Athugasemdir
Úr þessum pistli þínum skín fegurð og skynsemi. Heyr! Heyr! Velkomin á bloggið.
kv.
Bergur Thorberg, 28.1.2008 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.