Færsluflokkur: Bloggar

Sjónmengun er líka ein tegund umhverfismengunar

Á núna að beina fólki burt frá vandamálum Laugavegsins.  Loksins þegar komin var fín umræða um báglegt ástand miðbæjarins okkar. Jú fínt, settir voru upp vinnuhópar til að athuga hvað borgarbúar vilja gera í sínum hverfum. Allt gott og blessað.  En er ekki verið að dreifa huga fólks frá miðbænum? Hvers vegna?

Jú jú allt fínt og blessað að reyna að lifa soldið umhverfisvænna.  Það má nú alveg taka til hjá sér í þeim efnum. Þegar ég kom til Þýskalands bara varð ég að sortera ruslið, tók tíma sinn að skilgreina ruslið og koma sér upp viðeigandi ruslatunnum.  Nú svo er nú líka talað um að hér sé líka sumu rusli bara eytt saman, þótt maður eigi að sortera það.  Svo ég tek svona mátulega þátt í þessu sorteríi.

Nú og svo með vatnið.  Heima finnst öllum vatnið okkar hinn sjálfsagðasti hlutur, bara láta renna í 10 mín til að fá kalt vatn ofl.  Hér og nánast alls staðar annars staðar í heiminum er vatn munaðarvara sem fara skal vel með.  Ég er orðin svo þýsk að ég á erfitt með að hlusta á vatnið renna látlaust þegar ég kem heim í heimsókn.  Það er cool að láta vatnið ekki renna þegar tennur eru burstaðar.  En mikið voða er notalegt að fara í bað heima og hafa ekki þetta samviskubit yfir því að maður sé að spreða með vatnið. Jú ég er nautnaseggur þegar kemur að baði.  Já það er tvískinnungur í þessu öllu saman.

Týnum okkur samt ekki í smáatriðunum.  Ég fyrir mitt leyti myndi nú ekki þora að hjóla á umferðargötum borgarinnar, þótt mér finnist nú umferðin eitthvað hafa batnað á síðustu mánuðum.  En sem betur fer eru til göngu og hjólreiðastígar og þá myndi ég nú gjarnan nota, þ.e. ef ég byggi heima og ynni.

Sko það tókst að dreifa athygli minni.  En ég rankaði við mér aftur. Eigum við ekki skilið að fá upplýsingar um hvað á að verða um húsin á Laugaveginum sem standa tóm og eru í eigu fasteignasala og annarra peningamanna sem klæjar í lúkurnar að rífa þau og byggja hótel?


mbl.is Vistvænn lífsstíll Reykvíkinga kannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er hreint út sagt sorglegt

Já þetta er hrikalegt.  Sú sýn er blasir við manni á Laugaveginum er ekki það sem maður óskar sér fyrir borgina okkar.  Mikið af fallegum húsum á nú að rífa en líklegast er ekki fullkomið samþykki fyrir því, sem ég persónulega skil mjög vel.  Sorglegt er að horfa uppá þessi fallegu hús tóm og niðurnýdd, og þeim mun hrikalegar er að vita til þess að útigangsfólk haldi þar til. 

Framkoma borgarstjórnar vegna húsanna við Laugaveg 4 og 6 hafa eyðilagt algjörlega umfjöllun um friðun húsa við þessa aðalgötu okkar.  Hreint út sagt óforskammarlegt að kaupa húsin á um tíföldu brunabótarmats verði. Þetta lítur út eins og þetta hafi verið saman tekin ráð, til að auðveldara sé að ráðast í að rífa önnur hús við Laugarveginn.. Sorglegt .... sorglegt...

Það ætti frekar að nota svona fjármagn í að styrkja eigendur húsanna við Laugavegin í að byggja upp húsin aftur til að eftirsótt verði að vera þarna með starfsemi og að hægt sé að halda þarna uppi blómlegri starfsemi.  Nóg er að horfa til Evrópu í þeim efnum hvernig blómlegur miðbær er með götukaffihúsum, veitingastöðum og skemmtilegum búðum.  Og takið eftir: Það sem setur svip á borgirnar eru gamlar byggingar.

Kannið endilega þessa síðu:  www.laugavegur.net  Hér er hinn ótrúlegi listi yfir húsin við Laugaveg sem á að rífa ásamt myndum.  Ég vona innilega að það verði ekki að veruleika.  Þegar svo borin er saman ofangreind síða og Borgarskipulag (sjá vefsíðu:

http://www.rvk.is/PortalData/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/husvernd_sept06.pdf  )

þá kemur ansi sorgleg staðreynd í ljós.  Flest húsanna sem búið er að gefa leyfi fyrir að rífa eru frá árunum fyrir 1918.  Ég bara á ekki til orð...

Nú langt er síðan fyrst kom til tals að yfirbyggja götuna.  Það væri jú ein hugmyndin sem gæti hleypt lífi í miðbæinn.  Auðvitað er þægilegra að versla innan dyra þegar veðravítin herja á okkar land.  En við verðum að hlú að hjarta borgarinnar, sem jú Laugavegurinn og Austurstrætið er.  Svo mikið eiga nú forfeðurnir inni hjá okkur.  Annað er vanvirðing. 


mbl.is Kreppa á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að kynna blómstrandi menningu með eintómum nýbyggingum?

Þetta er jú gott framtak og fínt að kynna Ísland á heimsvísu.  Það eru enn alltof margir úti í hinum stóra heimi sem ekki vita neitt um okkar ylhýra land. Ég verð bara alltaf jafn hissa þegar fólk segir mér að ég sé fyrsti Íslendingurinn sem það hittir.  Sumir segja, nú líta Íslendingar svona út eins og þú?  Já þá get ég nú bara brosað.  Sumir eru þó voða klárir og þekkja Reykjavík og enn aðrir segjast hafa lent þar í millilanda flugi, já haldið að Reykjavík væri virkilega svona lítil eins og Keflavík er Smile

Já ekki veitir af að kynna landið okkar.  En hugsum samt aðeins um eitt.  Hvernig eigum við að geta verið stolt af Laugarveginum?  Ég spyr nú bara þar sem ég var þarna á gangi ekki fyrir svo löngu síðan og sá nokkur húsanna sem búið er að setja upp plön um að rífa, nú þegar að hluta til tóm og tilbúin til niðurrifs... Mörg þessara húsa hafa margar minningar að bera hjá fjölmörgum Íslendingum svo ekki sé nú talað um þá miklu menningarsögu sem þau einnig bera.  Hvers vegna er ekki hægt að endurnýja þau og gefa þeim nýjan glæsibrag. Ég sýndi erlendum kunningjum mínum myndirnar sem ég tók af þeim og voru þeir sammála mér um fegurð þessara húsa.  Jú vitanlega þurfa þau mis mikla endurnýjun, en að leyfa að rífa þau fyrir nýbyggingar sem munu gera Laugarveginn andlausan, eru hrein og ber hneyksli.

Enn og aftur bendi ég á að alls staðar annars staðar í Evrópu er verið að endurbyggja gömul hús. Jafnvel eru kumbaldar frá sjötta áratugnum rifnir til að byggja upp aftur þau hús sem stóðu þar áður fyrr.

Hvernig væri að vakna af þessum daglega svefni sem Íslendingar, sérstaklega Reykvíkingar virðast vera í og sjá verðmæti þessara fjölmörgu húsa sem á að rífa.  Sjá: http://www.laugavegur.net/

Viljum við virkilega eiga andlausan miðbæ og hjartalaus "Moll" sbr. Kringlan, Smáralind?

Ekki ég.


mbl.is Reykjavíkurborg þáttakandi í Iceland Naturally
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nostalgía

Ég var á ferðinni í Helsinki í vikunni.  Finnst mér oft borgin vera soldið þung á sér.  En þegar ég var þarna núna, var fólk á skautum á einu torginu nálægt aðalbrautarstöðinni og svo fór að snjóa, sem fólki finnst nú ekkert spennandi heima.  En ég varð að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég bara naut þess að labba um í snjónum og snjókomunni.  Maður hresstist allur við :) Reyndar var jú snjókoman lóðrétt en ekki lárétt eins og maður er vanur heima á Fróni.  Já ég er greinilega búin að búa alltof lengi í hinni heitu Miðevrópu :)

Annars er ég svo voða mikið fyrir gömul og kósí hús með sál og hvað þá þegar ég get notið þess að fara inn í þau og fengið mér kaffi, eins og á Kaffi Strindberg nálægt höfninni í Helsinki. Þá kemur bara nostalgían upp í mér og mér finnst ég vera heima með ömmu á Hressó. Nú bara spyr ég, hvar finnur maður fyrir gamla tímanum heima á kaffihúsi?  Getur einhver gefið mér góð ráð? Heimahagarnir eru farnir að toga í mig, svo ég verð að skreppa fyrir sumardaginn fyrsta :)


Gott að til er fólk sem vill vernda mynd bæjarins

Þetta er hús með sál!  Vitanlega er það illa farið, en þá er bara að horfa til Evrópu og sjá hvað þar er gert við gömul hús.  Þau eru einfaldlega endurbyggð.

Vonandi er einhver sem hlustar á þetta hróp á hjálp, svo ekki verði enn ein stórslysabyggingin byggð á þessum stað eins og gerst hefur annars staðar í Reykjavík.


mbl.is Niðurrifi mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá hugleiðing og ástæða fyrir stofnun þessa blogs

Ég er búin að vera búsett í Þýskalandi í nánast 10 ár og er ég loksins komin í almennilegt internet samband aftur.  Það er svo notalegt að geta fylgst með fréttunum heima í gengum netið.  Reyndar finnst mér ansi sorglegt að fylgjast með hvað er að gerast heima.  Fannst mér skaupið lýsa því ansi vel.  Var rosa gott að mínum dómi, en ekki voða fyndið... enda er það sem ég sé í íslenskum fréttum ekki heldur neitt fyndið.

Nýríkir stórhuga eiginhagsmunaseggir vaða uppi og núna á líka að rífa og ráðast á hjarta Reykjavíkurborgar... Alls staðar í Evrópu er verið að varðveita gömul hús og endurbyggja. En heima á hinu ylhýra móðurlandi er verið að ráðast að gömlum húsum, án þess að sjá hin hreinu menningarverðmæti í þeim.  Og svo þykist enginn bera ábyrgð á neinu...  Í hvaða þyrnirósarsvefni eru allir heima... ég bara skil þetta ekki. 

Við viljum jú að Reykjavík sé heimsborg, en allar sjarmerandi heimsborgir hafa sitt hjarta og gömlu hús sem segja sögu borgarinnar.  Þetta er það sem Kaninn hefur svo lítið af og lítur þ.a.l. alltaf til "The Old Country" og finnst hús sem eru rétt um 100 ára vera "very old".  Evrópubúar bara hlægja að þeim.  Viljum við líka láta hlæja að okkur?  Og svo fráfarandi Borgarstjóri, gamall MRingur þykist svo ekki hafa neina tilfinningu fyrir gömlum húsum. Því bara vil ég ekki trúa.  Þar finnst mér vera einhver maðkur í mysunni.

Ef þú lesandi góður hefur aldrei komið til Miðevrópu, þá bara myndi ég drífa mig sem fyrst.  Sem betur fer er hægt að ferðast nokkuð ódýrt núorðið, svo það ætti ekki að vera neinum til fyrirstöðu.  Skoðaðu t.d. Trier, Strasbourg, München, Berlin, Köln, Freiburg im Breisgau í Þýskalandi og berðu þær saman við t.d. Hannover, Giessen, Frankfurt am Main sem fóru allar mjög illa í seinni heimstyrjöldinni. Í Frankfurt am Main á að endurreisa hús sem féllu í stríðinu.  Fyrir þessa endurbyggingu á að rífa ljóta stóra byggingu frá sjötta áratugnum.  Heyr Heyr!! Nú og uppbyggingin í Berlín er jú einstök.  Gömul hús fá að skína sem skærast, endurreist og löguð.  Og þar sem þau eru fyrir er þeim gefið pláss í nýju skipulagi.  Sjáðu til dæmis gamla húsið við Potsdamer Platz, það var meira að segja fært til svo ekki þyrfti að rífa það.  Nú og við Brandenborgar hliðið. Þar voru hús byggð eins og þau gömlu litu út, alveg upp við Brandenborgarhliðið (Haus Sommer og Haus Liebermann).  Hótel Adlon var endurreist, endurreisa á höllina sem Austurþjóðverjar létu sprengja rústirnar af til að geta byggt eigin höll "Erichs Lampenladen" (Palast der Republik) og svona má lengi telja.  Nú og hugsið um uppbyggða Frúarkirkjuna i Dresden.  Hún var rústir einar, en með framlögum frá almenningi var hún endurreist í upprunalegri mynd og er nú ein af merkilegri byggingum þar. 

Ég veit að gömul hús eru jú mun misjöfn eins og þau eru mörg, og einhverjum finnst ég líklega vera ansi stór á mér að bera Frúarkirkjuna í Dresden saman við Laugaveg 4 og 6 eða Hljómalind eða Sirkus.  En þetta eru allt hús með sál, þarna hafa lífssögur verið skrifaðar.  Eins og með Austurstræti 22.  Það var virkilega sorgleg sjón að sjá það hús brenna.  Vitanlega var það orðið illa farið, en það er jú undir eigendum komið að halda þeim við.  Ætti að setja lög um viðhald á gömlum húsum og jafnvel veita eigendum gamalla húsa styrk til að endurbyggja þau og halda þeim í horfi.  Einnig finnst mér sorglegt að engin búð er lengur til í miðbænum með gömlum upprunalegum innanstokksmunum.  Það er hægt að finna hérna á meiginlandinu, og gefur það virkilegan sjarma. Það er ekkert gaman þegar allt er eins, allt í sama nútíma stílnum... 

Er ekki nýji Fjalarkötturinn fallegur?  Aðalstrætið er orðið mun fallegra en það nokkru sinni var, eftir að hann var endurreistur og húsin við þessa götu tekin í gegn.  Já svona fréttir eru góðar fréttir.  Ég vildi fegin heyra meira af þeim.

Kær kveðja héðan úr hjarta Evrópu


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband